Hótel Alua Tenerife er partur af Alua hótelkeðjunni. Þetta er fallegt hótel staðsett í Puerto de la Cruz sem hefur margt að bjóða, hvort sem um er að ræða pör, einstaklinga eða fjölskyldur. Playa Jardin ströndin er í um 300m fjarlægð og tíu mínútna gangur er í bæinn, en þaðan gengur strætó á ýmsa staði eyjunnar.
Hér er móttakan opin allan sólarhringinn og hægt að bóka ýmsar ferðir í gegnum hótelið.
Herbergin og svíturnar eru fallegar, rúmgóðar og nútímalega innréttaðar. Í þeim öllum má finna loftkælingu, öryggishólf (gegn gjaldi), ísskáp, kaffiaðstöðu, svalir eða verönd og baðherbergi með sturtu ásamt hárþurrku. Svíturnar eru auk þess með stofu og svefnsófa. Í boði er að fá barnarúm og er það háð framboði. EF bókað er CLUB HERBERGI eða CLUB SVÍTA fylgja ýmis fríðindi og aðgangur að lokuðum svæðum á hótelinu.
Hlaðborðsveitingastaður er á hótelinu, Terra, en þar er morgunverður, hádegis- og kvöldmaturinn framreiddur. Eldað er fyrir opnum tjöldum bæði í hádeginu og á kvöldin og ýmis þemakvöld haldin. Hægt er að vera með morgunverð eingöngu, hálft fæði eða allt innifalið. Einnig má finna A la Carte veitingastað, Enyesque, sem sérhæfir sig í „Tapas“ réttum. Að auki eru þrír barir á hótelinu, þar af einn sundlaugarbar en allir eru þeir með með fjölbreytt úrval kokteila og annarra drykkja.
Ýmsa þjónustu er hægt að nýta sér á hótelinu, m.a. þvottaþjónustu gegn gjaldi. Heilsulind og líkamsræktaraðstaða gegn gjaldi er í boði fyrir 16 ára og eldri. Barnaklúbbur er starfandi á háannatíma fyrir börn á aldrinum 4-12 ára og eru auk þess skemmtanir og viðburðir daglega, bæði yfir daginn og á kvöldin sem ætlað er öllum aldurshópum. Á hótelinu er jafnframt leikherbergi, hægt að spila tennis, píluspil og iðka jóga svo fátt eitt sé nefnt.
Garðurinn er snyrtilegur og sjarmerandi með þremur sundlaugum, þar ef einni barnalaug og einni innilaug. Sólbekkir og sólhlífar eru í garðinum til afnota fyrir hótelgesti og er hægt að sóla sig víða í hótelgarðinum.
Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.
Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.
Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega.
Fallegt og fjölskylduvænt hótel!