AluaSoul Orotava Valley (Adults only +16)
Hótellýsing

Hótel AluaSoul Orotava Valley er nýtt í sölu hjá Heimsferðum. Þetta er fallegt og nýtískulegt hótel sem var endurnýjað árið 2021 og er einungis ætlað gestum 16 ára og eldri. Hótelið er staðsett á norðurhluta eyjunnar í Puerto de la Cruz þar sem finna má hið sögufræga fjall Teide. Vinsæli dýragarðurinn Loro Parque er einnig í nágrenninu og Castillo ströndin er í göngufæri við hótelið. Tilvalið er að heimsækja gamla bæinn í Orotava dalnum.

Hér er móttakan opin allan sólarhringinn.

Svíturnar eru hannaðar með það í fyrirrúmi að gestir upplifi þægindi og ró. Þær eru allar bjartar og rúmgóðar og innréttaðar á nýtískulegan máta. Gegn aukagjaldi er hægt að bóka svítur sem snúa m.a að fjallinu Teide eða eru með sjávarsýn. Allar svíturnar eru með loftkælingu, gervihnattasjónvarpi, svölum eða verönd, öryggishólfi (gegn gjaldi), ísskáp og katli. Baðherbergin eru fullbúin með sturtu og hárþurrku. EF bókað er CLUB SVÍTA fylgir henni aðgangur að ýmsum lokuðum svæðum á hótelinu. Freyðivín bíður einnig gesta við komu ásamt því að gjaldfrjáls minibar er í þessum svítum.

Hlaðborðsveitingastaður er á hótelinu, Terra Café, en þar er morgunverður, hádegis- og kvöldmaturinn framreiddur. Eldað er fyrir opnum tjöldum bæði í hádeginu og á kvöldin. Hægt er að vera með morgunverð eingöngu, hálft fæði eða allt innifalið. Að auki má finna A la Carte veitingastað, Mare Nubium, en krafist er snyrtilegs klæðnaðar þar.  Einnig er góður bar á hótelinu, Agua Bar, sem er með fjölbreytt úrval kokteila og annarra drykkja.

Ýmsa þjónustu er hægt að nýta sér á hótelinu, m.a. þvottaþjónustu gegn gjaldi en hér er einnig líkamsræktaraðstaða fyrir hendi.

Garðurinn er snyrtilegur og sjarmerandi með upphitaðri sundlaug og eru sólbekkir í garðinum til afnota fyrir gest hótelsins. Einnig er hægt að sóla sig á stórri verönd í hótelgarðinum. Umhverfið er fallegt og náttúrulegt með t.a.m. bananatrjám alltumlykjandi. Sundlaugarbar er auk þess í garðinum.

Hótelið býður upp á Wi-Fi tengingu að kostnaðarlausu, en vert er að taka fram að internetsamband á hótelum getur verið hægt á álagstíma.  

Athugið að myndir af gististöðum á heimasíðu Heimsferða eru opinberar myndir gististaðanna til að gefa hugmynd um hvernig umhorfs er á gististaðnum og svæðinu. Heimsferðir geta ekki tryggt að ekkert hafi breyst frá því að þær voru teknar.

Athugið að Heimsferðir ráða ekki staðsetningu sinna farþega. 

Rólegt og fallegt hótel!