Marokkó

Agadir er einn af þessum einstöku áfangastöðum sem maður verður að heimsækja að minnsta kosti einu sinni á ævinni, en Agadir er stærsti sólstrandarstaður Marokkó. Borgin stendur við hinn fallega Agadir flóa, sem jafnan er talinn einn af þeim fallegri í heiminum en meðfram flóanum liggur gullin strandlengjan eins langt og augað eygir. Á þessum fallega stað skín sólin um 300 daga á ári en svæðið er umlukið fjöllum á einn veg og loftslagið því afskaplega milt og þægilegt. Notalegan andvara leggur svo frá hafi hinu megin frá, svo dagarnir verða aldrei of heitir.

Strandlengjan í Agadir telur eina 9 kílómetra, en við ströndina er nýleg 6 km löng strandgata sem iðar af mannlífi, en hér er fólk að spóka sig frá morgni til kvölds, á göngu, úti að skokka eða bara sitja og horfa á mannlífið. Á aðra höndina eru veitingastaðir, hótel og barir en á hina liggur breið og falleg ströndin. Snekkjubátahöfnin í Agadir er við annan enda göngugötunnar, en hún er hönnuð í stíl við hinar andalúsísku „marina“ sem svo margir þekkja frá Spáni, með um 300 bátalægi fyrir skútur og snekkjur alls staðar að úr heiminum, umlukin lúxusíbúðum og verslunum. Höfnin í Agadir kemur svo í framhaldinu og þar er afskaplega margt um manninn eins og gefur að skilja, en hér má sjá fiskibáta af öllum stærðum og gerðum, allt upp í stóra togara, hér eru fiskimarkaðir, slippur og menn og konur að karpa um verð og gæði aflans. Einnig má svo sjá fiskimenn elda á staðnum og gæða sér á gómsætum aflanum.

Hér eru falleg hótel með háu þjónustustigi en ekki þarf ferðamaðurinn að fara langt til þess að upplifa einstaka menningu heimamanna, sem gjarnan er gjörólík því sem við eigum að þekkja. Borgin þykir þó afar nútímaleg og ekki að ástæðulausu, en árið 1960 reið hér yfir jarðskjálfti sem lagði gömlu borgina í rúst. Heimamenn ásamt erlendum verkfræðingum og arkitektum hófu endurbyggingu nær strax, en á öðru svæði, nokkuð neðar en upprunalega borgin stóð á. Við uppbyggingu borgarinnar var borgarkerfi New York haft að fyrirmynd, en það er einmitt til þess fallið að sem einfaldast sé að átta sig og rata um.

Hér má finna breiðgötur með fjölda kaffihúsa, fallega græna garða í takt við lágreist steinhús í klassískum marokkóskum stíl. Þá var einnig enduruppbyggingin einnig unnin samkvæmt nýjum byggingastöðlum. Svæðið þar sem gamla borgin stóð áður er friðað og uppgröftur fer þar enn fram í dag og heimamenn tala um og fara um það svæði af mikilli virðingu. Sumir halda því fram að þessi 500.000 manna borg sé farin að láta á sjá og vissulega á það við í einhverjum tilfellum, en staðsetning hennar er fyrst og fremst áhugaverð vegna hins einstaka landslags sem umlykur svæðið, en stutt er í Atlas fjöllin, stórkostlegar eyðimerkur og þjóðgarða svo ekki sé minnst á hina einstöku Atlantshafs strandlengju.

Fólkið í Marokkó er umburðalynt og þekkt fyrir gestrisni og Agadir er borg í landi frjálslyndra múslima þar sem bar eða spilavíti eru gjarnan fótataki frá mosku, en allir virðast njóta þess að lifa og láta lífið hafa sinn gang í sátt og samlyndi í þessari ljúfu borg. Á nær hverju götuhorni má sjá íbúa klædda hefðbundnum múslima fatnaði sem og vestrænum fatnaði, andstæðurnar hér eru því miklar. Tungumál virðast liggja vel fyrir þessari einstöku þjóð og allflestir íbúar Agadir sem starfa í þjónustugeiranum tala og skilja ensku og þá tala nær allir frönsku og svo auðvitað sitt móðurmál, berbísku eða arabísku. Hér má sjá alla flóru samfélagsins og vel fer á með öllum, sama af hvaða uppruna eða trú viðkomandi er, enda þykir Agadir mjög umburðarlynd borg og heimamenn eru stoltir af uppruna sínum og menningu en fagna ferðamönnum, sem þeir hafa tekið á móti síðan um 1970.

Í dag er miðbær Agadir fyrst og fremst vinsæll meðal evrópskra ferðamanna en miðbærinn iðar af lífi og hér má finna verslanir og veitingastaði. Þá er hér risa-markaður, Souk El Had, að hætti Marokkóbúa og þangað ættu allir að fara til að upplifa einstakt andrúmsloftið sem þar ríkir. Þar fæst allt milli himins og jarðar; krydd, ávextir, grænmeti, kjöt, fiskur,skart, allsskonar skran og fatnaður – og Marokkóbúar eru kaupmenn af lífi og sál og vita ekkert skemmtilegra en að prútta um vöruna. Við snekkjubátahöfnina eru svo nútímalegri verslanir m.a. Zara og Mango sem svo margir þekkja en mest er þó um innlendar verslanir þar sem finna má fallega hluti. Gjaldmiðillinn í Marakkó er Dirham og verðlag er hagstætt og hægt að gera vel við sig í mat og drykk.

Agadir er fyrst og fremst sólstrandaráfangastaður og aðalaðdráttaraflið er auðvitað hin breiða og framúrskarandi hreina gullna strönd, en hingað kemur fólk einnig til að njóta þeirrar lúxus þjónustu sem hótelin hafa upp á að bjóða, njóta sín í heilsulindunum, spila golf á fyrsta flokks golfvöllum og auðvitað líka til að skyggnast inn í einstaka menningu þessarar yndislegu og stoltu þjóðar – eins og áður sagði er þetta staður andstæðna þar sem víst er að ferðamaðurinn mun upplifa eitthvað nýtt og áður óþekkt..

Flugtími: Um 5 klst. 35 mín. 
Gjaldmiðill: Marrokkóskur Dirham
Tungumál: Berbíska og arabíska 
Tímamismunur: Sami tími á sumrin en +1 klst. á veturna
Akstursfjarlægð frá flugvelli: Um 45 mín.

Kort

SÍA LEITARNIÐURSTÖÐUR

Leitarniðurstöðusýn

Raða eftir

Brottfararstað

Verði

Áfangastað

Tegund ferðar

Stjörnumat

Fæðisval

Aðstaða

Stjörnumat

Farþegar

Dagatal

Sjá leitarniðurstöður sem
Sjá leitarniðurstöður sem
Sýna verð sem
Veldu lágmarksfjölda

Veldu lengd ferðar

  • 9