Víetnam

Víetnam
– Uppselt 
14. – 28. mars 2017 
Fararstjórar: Jón Ingvar Kjaran / Árni Hermannsson

Keflavík – Frankfurt / Heidelberg – Saigon – Hue – Hoian – Hanoi – Halong Bay – Frankfurt – Keflavík 

Kynntu þér ferðina hér en ferðin er bókanleg á eldri bókunarsíðunni okkar bokun.heimsferdir.is

Einstaklega áhugaverð ferð til Víetnam sem býður uppá stórkostlega og ógleymanlega upplifun ásamt ótrúlegri sögu lands og þjóðar. Landið er einstaklega fagurt og gróðursælt með skógiklæddum fjöllum, gróskumiklum hrísgrjónaökrum, fossum og lækjum.

Heimamenn taka einstaklega vel á móti ferðamanninum og hvarvetna má sjá brosandi andlit. Í upphafi ferðar er flogið til Frankfurt og gist í bænum Heidelberg rétt sunnan við Frankfurt. Daginn eftir er flogið til Ho Chi Minh City (Saigon) í suðurhluta Víetnam og dvalið þar í 4 nætur.

Þaðan er haldið í norðurátt til fyrrum höfuðborgar Víetnam, Hue og borgarinnar Hoian en þær eru báðar afar áhugaverðar og á heimsminjaskrá UNESCO. Í lok ferðar er dvalið í höfuðborginni Hanoi. Þaðan verður farið í einnar nætur siglingu á Halong flóa með dæmigerðum bát heimamanna og gist þar eina nótt. Það er sem ævintýri líkast að sigla þar á milli stórfenglegra kalksteinskletta og fallegra sandstranda.

Fjölmargar áhugaverðar kynnisferðir eru innifaldar í ferðinni og þess ávallt gætt að heimsækja áhugaverða sögulega staði en einnig að njóta alls þess sem þetta fallega land hefur uppá að bjóða.

Netverð á mann m/fullt fæði innifalið
Frá kr. 469.900 í herbergi fyrir 2 
Frá kr. 548.800 í herbergi fyrir 1

Innifalið: Flug, skattar, 1 taska/20kg, gisting í 1 nótt í Heidelberg og í 11 nætur á 4* hótelum í Víetnam. Fullt fæði innifalið. Fjölmargar kynnisferðir og sigling innifalið í verði. Íslenskur fararstjóri miðað við lágmarksþátttöku 20 manns.

Ferðatilhögun

Dagur 1 – Flogið til Frankfurt

14. mars / þriðjudagur
Flug með Icelandair frá Keflavík til Frankfurt. Flugtak kl. 07:35, lending í Frankfurt kl 12:00 að staðartíma. Ekið frá flugvelli í Frankfurt til Heildelberg en aksturinn tekur um 1 klst. Um eftirmiðdaginn er boðið uppá gönguferð um Heildelberg. Gist í Heidelberg í 1 nótt á Hotel Bergheim41. 

Dagur 2 – Flogið til Ho Chi Minh City

15-16. mars / mið-fimmtudagur
Flug frá Frankfurt til Ho Chi Minh City (Saigon). Um morguninn er ekið frá Heidelberg um kl. 10.00. Flogið frá Frankfurt kl. 13.55 með Vietnam Airlines til Saigon. Lent að morgni þann 16.3. kl. 07.05 í Saigon (Ho Chi Minh City). Ekið frá flugvelli á hótelið Saigon Prince Hotel þar sem gist verður í 1 nótt. Eftir hádegi hefst kynnisferð um borgina og heimsótt verður Sameiningarhöllin, Notre Dame kirkjan, Óperuhúsið og sérstaklega hinn litríki Ben Thanh markaður. Í lokin verður svo boðið upp á hið fræga kaffi Víetnama og ekið aftur á hótel. Kvöldverður á völdum veitingastað.
* 11 klst flug frá Frankfurt til Saigon
* + 4 klst mismunur á Þýskalandi og Víetnam
* Akstur frá flugvelli í Saigon til hótels ca. 45 min.
* 3.5 klst. skoðunarferð um borgina

Dagur 3 – Cu Chi göngin

17. mars / föstudagur 
Eftir morgunverð verður farið frá hóteli og stefnt á Cu Chi borg. Þar verður skoðað hið fræga neðanjarðargangakerfi frá tímum Vietnam-stríðsins. Staðurinn er þekktur undir nafninu ,,Járn þríhyrningurinn“ en þar áttu Vietnamar í áralöngum átökum við Bandaríkjamenn. Hluti ganganna er varðveittur og svæðið, sem nú er verndað, varpar skýru ljósi á þau átök sem heimurinn þóttist þekkja á 7. áratug síðustu aldar. Hádegisverður verður snæddur á veitingastað í nágrenninu og ekið aftur til baka til Ho Min Chi City og endað á að heimsækja Stríðsminjasafnið í borginni en þá fá menn endanlega mynd af Vietnam-stríðinu. Seinni hluti dagsins er svo frjáls.
*Ca. 2ja tíma akstur og skoðunarferð í Cu Chi um það bil 2 tímar

Dagur 4 – Óshólmar Mekong

18. mars / laugardagur 
Að loknum morgunverði verður ekið inn á óshólma Mekong fljóts en þar gefur að líta sannkallað líf á vatni! Fyrst er farið til borgarinnar My Tho í Mekong Delta héraðinu um 80 km frá Saigon. Það búa um 230.000 manns. Þar verður stigið um borð í báta og siglt um svæðið. Heimsótt verða ,,eyjaþorp“ þar sem skoðaðar verða framleiðsluvörur íbúanna, einkum handgerðir munir og þeirra eigið sælgæti úr kókoshnetum ásamt fjölbreytilegum ávöxtum. Hópnum verður boðið upp á smá ferðalag á hestvögnum innfæddra. Hádegisverður þar sem boðið verður upp á ýmiss konar mat sem er einkennandi fyrir svæðið. Eftir hádegisverð verður farið til Can Tho, sem er stærsta borg svæðisins og þaðan verður farið í siglingu um nágrennið. Um kvöldið er sameiginlegur kvöldverður á veitingastað.
* Ca. 2ja tíma akstur – kynnisferð ásamt hádegisverð um það bil 4-5 tímar

Dagur 5 – Mekong Delta héraðið

19. mars / sunnudagur
Eftir morgunverð verður farið á Cai Rang markaðinn, sem er sá stærsti á þessum slóðum. Þar safnast saman á bátum sínum íbúar óshólmanna í hundraðavís og er stórkostlegt sjónarspil þegar þeir bjóða varning sinn til sölu. Frá markaðinum verður farið í aldingarð þar sem boðið verður upp á ýmiss konar ávexti heimamanna. Þá verður heimsótt Khmer pagóðan/musterið og að því loknu snæddur hádegisverður. Að loknum hádegisverði verður haldið aftur til Ho Chi Min og á leiðinni verður stoppað um stund í fjölbreytilegu Kínahverfi borgarinnar.
* Ca 3.5 klst akstur.

Dagur 6 – Forna borgin Hue

20. mars / mánudagur
Að loknum morgunmat verður ekið út á flugvöll og flogið til hinnar fornu höfuðborgar Vietnam, Hue, þar sem gist verður í 1 nótt á Moonlight Hotel Hue. Frá flugvelli er ekið til hótels og eftir hádegi verður farin skoðunarferð um borgina sem er á Heimsminjaskrá Sameinuðu Þjóðanna. Farið verður að Thien Mu pagóðunni/musterinu sem er ein merkasta pagóða landsins. Um kvöldið er haldið á konunglegan veitingastað þar sem gestir gæða sér á mat sem er einkennandi fyrir Mið-Víetnam.
* Flug Saigon – Hue 1.5 klst
* Akstur frá Hue flugvelli til miðbæjar um 30 min.
* Kynnisferð um 3 klst.

Dagur 7 – Hue og Hoian

21. mars / þriðjudagur
Eftir morgunmat verða heimsóttar Konunglegu grafirnar, hallir hinna fyrrum keisarar og garðhýsi þeirra. Að lokinni skoðunarferð er hádegisverður. Eftir hádegið verður svo ekið undrafagra leið frá Hue til Hoian með ströndinni og yfir hið stórfenglega Hai Van fjallaskarð og komið til strandbæjarins Hoian þar sem gist verður næstu 2 nætur á hótelinu Hoian Beach Resort
*Ca. 4 klst. akstur frá Hue til Hoian með stoppum á leiðinni.

Dagur 8 – Dvalið í Hoian

22. mars / miðvikudagur
Eftir morgunmat verður farið í gönguferð um hin gamla, heillandi borgarhluta Hoian en hann er á Heimsminjaskrá SÞ  vegna vel varðveittra húsa og stræta og einnig þar sem borgin var mikil verslunarmiðstöð til forna.  Merkir staðir eru m.a. annars Japanska brúin í borginni, Kínverska verslunarhúsið og markaðurinn. Seinni hluti dagsins er svo frjáls en nóg er að skoða í borginni og úrval veitingastaða. 

Dagur 9 – Dvalið í Hoian

23. mars / fimmtudagur 
Frjáls dagur en boðið verður upp á skoðunarferð.

Skoðunarferðin verður auglýst nánar hjá fararstjóra í Víetnam.

Dagur 10 – Hin fræga Hanoi

24. mars / föstudagur
Í dag kveðjum við Hoian og að loknum morgunverði verður ekið til Danang til að sjá svokölluðu Marmarafjöll sem eru afar sérkennileg og einnig verður heimsótt Cham-safnið sem geymir minjar um fyrrum þjóðflokka landsins. Snæddur verður hádegisverður og svo verður flogið til Hanoi, helstu borgar í N-Víetnam. Ekið frá flugvelli til hótelsins Silk Path Hotel en við hótelið er fjöldi veitingastaða.
* Flug Hoinan–Hanoi 1 klst og 15 mín.
* Akstur frá Hanoi flugvelli til borgar um það bil 35-40 mín.

Dagur 11 – Dvalið í Hanoi

25. mars / laugardagur
Að loknum morgunverði verður farið í dagsferð um borgina sem löngum hefur verið hjarta menningar- og stjórnmálasögu landsins. Byrjað verður á að heimsækja grafhýsi þjóðhetjunnar miklu, Ho Chi Min, og þaðan í Sögusafnið. Eftir hádegisverð verður farið í rickshaw-kerrum um hið líflega, gamla hverfi borgarinnar en þar hefur ekkert breyst um árhundruð. Rickshaw-túrinn endar við Ma May götuna sem er einkennandi fyrir 19. aldar nýlendubyggð og að lokum farið í hið fræga vatnaleikhús borgarinnar.

Dagur 12 – Siglt um Halong-flóa

26. mars / sunnudagur
Að loknum morgunverði verður ekið til Halong flóa og gert stopp á leiðinni. Farið verður um borð í ,,júnku“ sem er jafnframt lúxushótelið La Vela Classic.  Siglt um flóann en flóinn og hinar háu sérkennilegu kalksteinseyjar eru eitt af náttúruundrum heims, yfir 3000 talsins. Siglt verður á smærri bátum í land og boðið verður upp á sund og kæjakferð (aukagjald). Kvöldverður um borð og lífsins notið á þessum stórkostlega stað.
*Ca. 4 klst. akstur frá Hanoi til Halong flóa með stoppum á leiðinni

Dagur 13/14 – Halong & Flogið heim

27-28. mars mánu- / þriðjudagur
Fyrir þá morgunglöðu verður boðið upp á ,,Taichi-afslöppun“ á sólarþilfari skipsins. Og áfram er siglt um flóann og snæddur hádegisverður um borð. Seinni hluta dags er siglt til hafnar. Eftir góðan kvöldverð er síðan ekið til Hanoi flugvallar. Þaðan er flogið til Frankfurt kl. 23.35 og lent í Frankfurt þann 28.3. kl. 06.00. Flogið er heim með Icelandair frá Frankfurt kl. 14.00 og lent í Keflavík kl. 15.35.
*Ca. 4 klst. akstur frá Halong flóa til flugvallar.

Deila núverandi vefslóð með tölvupósti